Of langar leiðir

Ég man yfirleitt það sem mig dreymir en leiðin að netinu er of löng til að ég geti munað drauminn þegar kemur að skólanum. Ég skrifa því annað hvort næst þegar minnið mitt batnar eða ég sofna í skólanum.

Ekki draumur en nálægt því

Í gærnótt vaknaði ég um 3 leitið eftir að hafa sofið í klukkutíma og hélt að ég væri orðinn of seinn í vinnuna. Þar sem ég er langt frá því að vera mikilvægur hlekkur í vinnunni tek ég mér minn tíma. Ég sat því í ca 10 mínútur í rúminu og var að reyna að koma mér á lappir, haldandi að klukkan væri rúmlega 8, einhverra hluta vegna.
Það er ekki til betri tilfinning en þegar maður fattar að hægt er að sofa í amk 4 tíma í viðbót.

Slagsmál

Um helgina dreymdi mig að Björgvin bróðir hefði dottið með einhvern á hestbaki og Gylfi stóð og hló á meðan Björgvin lá meiddur. Ég snappaði því og réðst á Gylfa, gefandi honum nokkur vel valin högg. Gylfi varð brjálaður og við lentum í rifrildi.

Kjötleysið nær til mín

Í nótt dreymdi mig að ég hefði pantað hamborgara með frönskum og öllu tilheyrandi í Smáralindinni en þeir sem afgreiddu mig voru Simmi og Jói, þessir sem eru gjörsamlega staðnaðir í húmor. Afgreiðslan var skelfileg og þeir virtust ekki vilja afgreiða mig. Þegar þeir gerðu það svo loksins þá voru flestir farnir og hamborgarinn ógeðslegur í útliti. Sverrir Gestsson, gamli grunnskólakennarinn minn var þarna í salnum auk Soffíu Sveins, sem ég baðst afsökunnar til fyrir að hafa keypt mér hamborgara, alveg óvart.

Skrítið að dreyma kjöt á þennan hátt þegar ég borða það ekki lengur.

Tiltekt

Raunverulegur draumur minn rættist að sumu leiti í nótt þegar tekið var til heima hjá mér, þó ekki Helgafellinu heldur gömlu heildsölunni þar sem ég virtist búa. Þórunn Gréta var sú sem, að sögn Björgvins bróðir, tók til í skógeymslunni. Í kjölfarið fann ég ekki skónna mína og var mjög óánægður. Björgvin leitaði að þeim inni á meðan ég fór út berfættur í moldina sem er í götunni og kveikti á tölvuskjá ofan í einum af hundruðum polla sem eru í götunni. Þá sá ég Björgvin koma aftur út með skónna í höndunum og hokkíkylfi í hendi og lífið hélt áfram. Þá auðvitað rumskaði ég, orðinn 20 mínútum of seinn í vinnuna.

Draumlaust og gott

Í nótt dreymdi mig ekkert sem ég man eftir sem er af hinu góða í ljósi undangenginna nótta.

Dauði og djöfull

Mig dreymdi að Sveinbjörn frændi hefði látið lífið í nótt. Ég vaknaði nokkuð fyrr en venjulega og náði alls ekki að festa svefn eftir það. Óþolandi draumur.

Skalli bítill

Í fyrradag dreymdi mig að ég væri að verða sköllóttur með sífellt hærri kollvik. Mjög leiðinlegur draumur.

Svitabað

Í nótt vaknaði ég eftir klukkutímasvefn löðrandi í svita, í köldu herbergi. Ég fór því, fullur af viðbjóði, niður á salernið og þreif mig hátt og lágt. Svaf svo ofan á sænginni það sem eftir lifði nætur. Verst að ég man ekki hvað mig dreymdi. Það hefur verið eitthvað rosalegt!

Finnbogastaðaskóli

Í nótt dreymdi mig að gamla húsið okkar, Finnbogastaðaskóli, hefði verið fluttur til Fellabæjar. Það sem var sérstakt við þennan flutning var að hann var úr pappa en samt nákvæmleg eftirlíking af upprunalega húsinu. Það var hægt að leggja niður með einu handtaki og setja upp sömuleiðis. Stuttur og góður draumur sem lét mig hugsa til fortíðar.