Ég hef ekki séð myndina The Village en í nótt dreymdi mig hana. Myndin fjallar víst um einhverskonar skrímsli sem halda bæ einhverjum föngnum í skógi einum. Í draumnum var þetta þó stórborg þar sem risapöddur voru að gera allt vitlaust. Í einni senunni var maður gleyptur í gegnum rúðu af grænu risa blobi. Eftir að hafa verið gleyptur sást hvernig hann fór í þúsund mola. Síðar forðaði skrímslið sér en varð fyrir óhappi í jeppa og sprakk.
Í lokin tóku pöddurnar einhvern piltung með sér í pöddu heimana og þarmeð lauk myndinni.
2 stjörnur af fjórum. Vel leikin.
Í nótt dreymdi mig að ég væri að forða mér undan nasistum í seinni heimstyrjöldinni. Ég og Óli vorum hlaupandi í miðfellinu í Fellabæ um hánótt með Björgvin og Bergvin í einhverri kerru sem rann niður götuna fyrir aftan okkur. Planið var að fara upp í Fellasveitina einhversstaðar og fela okkur þar sem við vorum allir gyðingar í draumnum. Mjög sérstakur og raunverulegur draumur.
Ég man yfirleitt það sem mig dreymir en leiðin að netinu er of löng til að ég geti munað drauminn þegar kemur að skólanum. Ég skrifa því annað hvort næst þegar minnið mitt batnar eða ég sofna í skólanum.
Í gærnótt vaknaði ég um 3 leitið eftir að hafa sofið í klukkutíma og hélt að ég væri orðinn of seinn í vinnuna. Þar sem ég er langt frá því að vera mikilvægur hlekkur í vinnunni tek ég mér minn tíma. Ég sat því í ca 10 mínútur í rúminu og var að reyna að koma mér á lappir, haldandi að klukkan væri rúmlega 8, einhverra hluta vegna.
Það er ekki til betri tilfinning en þegar maður fattar að hægt er að sofa í amk 4 tíma í viðbót.
Um helgina dreymdi mig að Björgvin bróðir hefði dottið með einhvern á hestbaki og Gylfi stóð og hló á meðan Björgvin lá meiddur. Ég snappaði því og réðst á Gylfa, gefandi honum nokkur vel valin högg. Gylfi varð brjálaður og við lentum í rifrildi.
Í nótt dreymdi mig að ég hefði pantað hamborgara með frönskum og öllu tilheyrandi í Smáralindinni en þeir sem afgreiddu mig voru Simmi og Jói, þessir sem eru gjörsamlega staðnaðir í húmor. Afgreiðslan var skelfileg og þeir virtust ekki vilja afgreiða mig. Þegar þeir gerðu það svo loksins þá voru flestir farnir og hamborgarinn ógeðslegur í útliti. Sverrir Gestsson, gamli grunnskólakennarinn minn var þarna í salnum auk Soffíu Sveins, sem ég baðst afsökunnar til fyrir að hafa keypt mér hamborgara, alveg óvart.
Skrítið að dreyma kjöt á þennan hátt þegar ég borða það ekki lengur.
Raunverulegur draumur minn rættist að sumu leiti í nótt þegar tekið var til heima hjá mér, þó ekki Helgafellinu heldur gömlu heildsölunni þar sem ég virtist búa. Þórunn Gréta var sú sem, að sögn Björgvins bróðir, tók til í skógeymslunni. Í kjölfarið fann ég ekki skónna mína og var mjög óánægður. Björgvin leitaði að þeim inni á meðan ég fór út berfættur í moldina sem er í götunni og kveikti á tölvuskjá ofan í einum af hundruðum polla sem eru í götunni. Þá sá ég Björgvin koma aftur út með skónna í höndunum og hokkíkylfi í hendi og lífið hélt áfram. Þá auðvitað rumskaði ég, orðinn 20 mínútum of seinn í vinnuna.
Í nótt dreymdi mig ekkert sem ég man eftir sem er af hinu góða í ljósi undangenginna nótta.
Mig dreymdi að Sveinbjörn frændi hefði látið lífið í nótt. Ég vaknaði nokkuð fyrr en venjulega og náði alls ekki að festa svefn eftir það. Óþolandi draumur.
Í fyrradag dreymdi mig að ég væri að verða sköllóttur með sífellt hærri kollvik. Mjög leiðinlegur draumur.
Í nótt vaknaði ég eftir klukkutímasvefn löðrandi í svita, í köldu herbergi. Ég fór því, fullur af viðbjóði, niður á salernið og þreif mig hátt og lágt. Svaf svo ofan á sænginni það sem eftir lifði nætur. Verst að ég man ekki hvað mig dreymdi. Það hefur verið eitthvað rosalegt!
Í nótt dreymdi mig að gamla húsið okkar, Finnbogastaðaskóli, hefði verið fluttur til Fellabæjar. Það sem var sérstakt við þennan flutning var að hann var úr pappa en samt nákvæmleg eftirlíking af upprunalega húsinu. Það var hægt að leggja niður með einu handtaki og setja upp sömuleiðis. Stuttur og góður draumur sem lét mig hugsa til fortíðar.
Í nótt var ég svo þreyttur að ég sofnaði í svefni, þeas mig dreymdi að ég hefði sofnað.
Draumurinn byrjaði á því að ég var að ganga framhjá íþróttahúsinu og hitti þar Emil Björnsson, gamla áfangastjórann minn í ME en hann gekk með mér í átt að húsi þar sem mér hafði verið boðið í mat af Soffíu Sveinsdóttur. Hjá henni var eldri systir hennar og eldri vinkona einhver sem var mjög svipuð þeim systrum í útliti. Allavega, ég lagðist í sófann og horfði á fréttir ef ég man rétt. Eftir smástund var ég mjög þreyttur og ég man greinilega að ég barðist hatrammri baráttu við að sofna ekki en beið ósigur. Ég reyndi eins og ég gat að vakna þarna í sófanum en gekk ekki betur en svo að ég vaknaði af báðum svefnunum heima í rúminu klukka 5:00 í nótt, mjög súr yfir málalokum þar sem ég átti eftir að borða í þessu matarboði.
Í nótt dreymdi mig reiðinnar býsn, loksins. Einhver stelpa, minnir mig að hafi verið Elsa Guðný (???) var að vinna í Olís og vantaði lykla einhverja til að geta afgreitt fólkið sem vildi versla í sjoppunni. Hún bað mig um að ná í lyklana heima hjá einhverjum en svo leiðinlega vildi til að þeir voru fastir í einhverju forriti (!!!). Eftir smá basl náði ég lyklunum úr forritinu og kom ég með þá en þá var klukkan orðin 2 að nóttu og hún mjög óánægð með árangur minn. Ég afsakaði mig í bak og fyrir en ekkert gekk.
Næsta dag var einhver að vinna sem ég man ekki hver var og Olís sjoppan var búin að yfirtaka Svarthvítu Hetjuna. Afgreiðslumaðurinn/stúlkan sýndi mér endurspeglun manns í glugganum sem gekk mjög rólega í átt að rúðunni að því er virtist. Enginn karl var þó nokkurstaðar að finna. Ég man að ég var skelfingu lostinn í draumnum.
Ég skemmti mér svo vel við draumfarirnar að ég svaf vel yfir mig.
Það lítur út fyrir að mig dreymi ekki nokkurn skapaðan hlut þessa dagana. Mig dreymdi reyndar batmanbíl (???) fyrir nokkrum dögum síðan en það var stuttur draumur og fábrotinn.
Ég tek stundum ca tveggja vikna draumfaraskeið og ég vona að það fari að líða að einu slíku.
Í gærnótt dreymdi mig vinkonu mína sem ég fer ekki nánar út í.
Í nótt dreymdi mig svo eitthvað um að fljúga, ég gat flogið og var staddur í borg. Merkilegt.
Í nótt dreymdi mig eitthvað svo stórkostlegt, eitthvað svo unaðslegt og frábært að ég náði að gleyma því eftir rúmar 10 mínútur. Það tengdist eitthvað bílnum mínum minnir mig.
Lögreglan tók mig á nesinu í nótt á meðan ég svaf, þeas hún stoppaði mig á of miklum hraða. Man lítið meira. Og já, þetta var draumur.
Í nótt dreymdi mig að ég væri í sveit í heimsókn á einhverjum bæ. Við skoðuðum nágrenni bæjarins nokkuð vel og lentum í smá eltingaleik við bóndann, einhverra hluta vegna.
Mestmegnis átti draumurinn sér stað í kringum smá hæð sem var sérkennileg í laginu með mikið af gulleitu grasi á, að mér fannst. Hélt alltaf að mann dreymdi í svarthvítu en ég sá greinilegan lit á grasinu. Haustlitir og haustveður. Hvasst. Virkilega þægilegur draumur og ég vaknaði endurnærður.